miðvikudagur, 5. desember 2007
OUT OF TOUCH - Grass Roots EP
Ég heyrði fyrst í þessum meisturum í netútvarpsþætti pönkritsins Maximum Rock 'N' Roll. Það var tekin syrpa af hörku þungapönki frá Japan sem innihélt m.a. lagið Profit of Sin af Grass Roots þröngskífunni sem er í raun eina platan sem ég hef séð og grunar að þetta sé það eina sem þeir hafa gefið út. Við vorum nokkrir félagarnir sem misstum okkur algjörlega yfir þessu lagi sem og öðru lagi eftir hljómsveitina FOODCHAIN. Bæði böndin áttu það sameiginlegt að spila fáránlega hratt og vera með söngvara með yndislega skræka rödd.
Það var ekki fyrr en 2003 á tónleikum í Ungdomshuset, Kaupmannahöfn sem ég fann þetta loksins á plötu. I ADAPT voru að spila þarna um kvöldið ásamt I SHOT CYRUS frá Brasilíu, THE RESTARTS frá Englandi og S.I.K.A. frá Slóvakíu. Vinur minn var fáránlega veikur og við misstum því af I SHOT CYRUS sem voru seinastir en sem betur fer höfðum við séð þá nokkrum dögum áður í Belgíu því það er eitt rosalegasta band sem Brasilía hefur getið af sér og er nóg um gott pönk í því landi. Allaveganna þá var Kick 'N' Punch Records með plötubás á svæðinu þannig að það var gramsað. Birkir, söngvari I ADAPT rak upp hljóð og tók upp Grass Roots 7" úr kassanum og sagðist hafa fundið hana fyrst. Djöfull öfundaði ég hann í svona mínútu þar til að ég rakst á annað eintak sem ég greip handa sjálfum mér. Af þeim 50 plötum sem ég keypti á þessu flakki var þetta klárlega gimsteinn ferðarinnar.
Þessi plata er svo mikið gull. Hraði, brjálæði og geggjaðar melódíur. Hljómsveitin mín THE BEST HARDCORE BAND IN THE WORLD hefur gjarnan coverað lagið Profit of Sin ásamt því að fá ansi margt lánað frá þeim í okkar eigin lög. Það er því ekki að ástæðulausu sem ég valdi þetta sem fyrstu plötuna til að fjalla um hér á þessu nýja tónlistarbloggi mínu. Hér fyrir neðan eru tvö lög af geisladiskaútgáfu plötunnar, sem mig langar lúmskt að eignast þrátt fyrir að eiga vínylinn.
Gefið út af Blurred Records árið 2002
Profit of Sin
Selfish
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli