föstudagur, 16. maí 2008

T.S.O.L. - Change Today? LP


Change Today? var fyrsta plata T.S.O.L. á útgáfufyrirtækinu Enigma. Þær þrjár plötur sem T.S.O.L. gáfu út á því fyrirtæki hafa löngum verið álitnar lágpunktur hljómsveitarinnar enda sneri hljómsveitin sér þá í átt að nýbylgjupoppblönduðu typparokki einhverju, eins og var vinsælt að gera á 9. áratugnum. Nú hef ég ekki heyrt plötuna Revenge sem var önnur platan af þessari þrenningu en sú seinasta Hit and Run er vægast sagt algjör hörmung.

Change Today? er skrýtin plata að mörgu leiti. Hún er karlmannlegri en fyrri plötur sveitarinnar og hefur að geyma ákveðna hluti sem finna má á Hit and Run plötunni. Hins vegar er Change Today? pönkplata. Nýbylgjulegar og gotneskar melódíur og popptilfinningin ræður ríkjum á þessari plötu sem gerir hana fullorðinslegri en fyrra efni og ég verð bara að viðurkenna að mér finnst þetta eiginlega langbesta plata sveitarinnar.

Nú geyma plötur eins og Dance With Me óneitanlega ódauðlega slagara og þar eru gítar- og bassamelódíur sem seint er hægt að gleyma en þegar það kemur að fullorðins poppmelódíum og drungalegum gítarköflum þá hefur Change Today? klárlega vinninginn.

Ég geng jafnvel svo langt að segja að þessi plata sé ein sú besta sem kom út á 9. áratugnum. Það er fáránlega stór fullyrðing þar sem þetta tímabil er líklega eitt það frjóasta og mest spennandi í sögu tónlistar.

Gefið út af Enigma árið 1984.

Blackmagic
Flowers by the Door