fimmtudagur, 20. mars 2008

TOTALITÄR - Sin Egen Motståndare LP


Djöfulsins andskotans snilld er þetta band!! Þeir eru búnir að vera í gangi síðan 1985 og þeir eru ennþá rosalegasta d-beat bandið á svæðinu. Þvílíkur kraftur og reiði sem gustar af þeim þegar fara á fullt og gera lítið úr 90% d-beat banda í dag.

Sin Egen Motståndare er algjör gullmoli sem myndi sóma sér vel í safni hvers og eins pönkáhugamanns. Mér finnst í raun skylda að eiga allaveganna eina plötu með þessu bandi. Sin Egen Motståndare er fyrsta LP plata sveitarinnar en hún kom út árið 1994. Þetta band hefur aldrei verið duglegt við að gefa út og á þessum 23 árum síðan hljómsveitin var stofnuð hafa aðeins verið gefnar út fimm LP plötur með þeim og þar af eru tvær þeirra splitt LP (ein með DISMACHINE og önnur með DISCLOSE). Af því sem ég hef heyrt hljómar líka ekki eins og hljómsveitin hafi þróast neitt! En það er allt í lagi því þeir ná alltaf að vera geggjaðir og ég fæ aldrei leið á þessu drasli.

Ég myndi ekki segja að Sin Egen Motståndare væri uppáhalds TOTALITÄR platan mín. En þetta er eina LPið þeirra sem ég hef virkilega stúderað og mér finnst magnað að hefðbundið d-beat band eins og TOTALITÄR geti gefið út 18 laga plötu og ég er ennþá alveg brjálaður þegar komið er að seinasta laginu. Það er auðvelt að týna sér í einsleitninni en TOTALITÄR hafa eitthvað svona edge sem heldur manni föstum við græjurnar.

Ef þið hafið gaman að þessum lögum hér, endilega tékkið á plötunni. Hún var endurútgefin af Prank Records og ætti því að vera auðfinnanleg. Ennfremur ættuði að redda ykkur splitt EPinu þeirra með hljómsveitinni DROPDEAD en sú plata er algjörlega hápunktur beggja banda. Mér finnst afar líklegt að hún verði tekin fyrir einn daginn hérna.

Gefið út af Finn árið 1994.

Sin Egen Motståndare

På Väg Mot Mål

sunnudagur, 16. mars 2008

X - Los Angeles LP

Ég heyrði fyrst titillag þessarar plötu í einhverjum Tony Hawk's Underground leik í Playstation 2. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafði gaman að þessu lagi frá því að ég heyrði það fyrst, tók smá tíma að kvikna á þeim brennandi áhuga sem ég hef á þessu bandi í dag.

Ég fann plötuna notaða á uppsprengdu verði einhverntíman í London. Hún var samt ekki svo dýr en af einhverri ástæðu keypti ég hana samt ekki. Þegar ég loks fann nýtt eintak af henni komst ég að því að hún er bara frekar dýr almennt. Ég fann hana, eins og svo margar aðrar plötur í Combat Rock Shop í Helsinki. Eðal búlla.

X spila drungalegt , framúrstefnulegt og nýbylgjuskotið pönk. Melódíurnar eru myrkar og þunglamalegar og lagasmíðarnar, þar sem leikið er með hálf-post pönkaðar hugmyndir, ná að láta andrúmsloftið grípa mann hálstaki og platan sleppir því ekki fyrr enn henni er lokið. Ég sé fyrir mér dópista í dimmu húsasundi í miðborg Los Angeles. Ég sé fyrir mér þunglyndi og sjálfsmorð. Ég finn fyrir nauðsynin þess að skapa til þess að takast á við allt það ömurlega í heiminum. Þessi plata, þetta band er svo mikið sem svo margir reyna að gera en mun aldrei takast.

Gefið út af Slash árið 1980.

Johnny Hit and Run Pauline
Los Angeles