mánudagur, 28. júlí 2008

SKATE KORPSE - Discography LP


Ókei, ókei, ég veit að ég var búin að tala um áður að ég myndi ekki taka fyrir discógrafíur en samt sem áður er þetta önnur discógrafían sem ég skrifa um hér. SKATE KORPSE var samt bara svo stuttlíft band að mér finnst það ekki skipta máli. Þetta eru líka bara þrjár sjötommur, eitt demó og eitthvað óútgefið dót. Þessi discógrafía er líka bara svo andskoti geggjuð að mér er alveg sama! Þeir sem hafa eitthvað fylgst með á þessu bloggi hafa væntanlega tekið eftir að ég er ansi veikur fyrir 80's pönki og þar með talin eru ýmis retro bönd samtímans. Retro'ið finnst mér samt oft vand með farið. Allaveganna ef þú vilt rífa þig úr meðalmennskunni. Ég nenni lítið að hlusta á bönd sem apa bara upp eftir gömlu böndunum. Ég vil endursköpun og nýjungar. Ef band er retro þá vil ég að það hljómi eins og band sem var uppi á þessum tíma og spilaði með þeim klassísku. Ég vil að bandið hljómi eins og ef það hefði verið uppi á þessum tíma hefði það breytt einhverju. Ég nenni lítið að hlusta á bönd sem eru bara þurrar eftirhermur af liðnum tímum.

SKATE KORPSE eru langt frá því að vera frumlegir en þeir hafa sterkan persónuleika og sérstöðu. Þeir eru ekki afrit af gömlum böndum þó svo að þeir hafi svo sannarlega tekið fáránlega mikil áhrif frá Kaliforníupönki 9. áratugsins. Surf- og skate-melódódíurnar eru allsráðandi og þær magnast einhvernveginn upp í hálf klunnalegri en orkuríkri keyrslu og það myndast eitthvað svona andrúmsloft sem grípur mann og... æjj, ég veit ekki.... þetta er bara eitthvað svo alvöru.

Ef ég ætti að nefna önnur bönd til samanburðar myndi segja J.F.A., DEAD KENNEDYS, AGENT ORANGE og DICK DALE. Til að lýsa því nánar myndi ég segja að tónlist SKATE KORPSE keyrði á svipaðri orku og J.F.A. og hefði þennan sterka surf hljóm AGENT ORANGE OG J.F.A. en tækju jafnvel meiri DICK DALE áhrif inn í gítarriffin sem eru þó alltaf spiluð með einhverskonar DEAD KENNEDYS-legum melódískum blæ.

Þess má til gamans geta að á B hlið plötunnar covera þeir einmitt lagið Moon Over Marin eftir DEAD KENNEDYS og minna mann á hversu vel spilandi band DEAD KENNEDYS var. B hliðin á þessari plötu er óútgefið efni ásamt einhvers demós en sú hlið, þó að hún sé skemmtileg, er ekki jafn rosaleg og kraftmikil og A hliðin. Það segir samt mikið að það þurfi bara eina hlið til þess að gera þetta að einni af mínum uppáhalds plötum.

Topp.Fokkings.Plata.

Takk fyrir!

Gefið út af Feral Kid Records árið 2006.

Bomb the Hills
(Set inn annað lag þegar ég kem heim úr vinnunni)